Lokaskýrsla
Hrefna Karen Pétursdóttir
Inngangur
Í þessari skýrslu mun ég fjalla um þá vegferð sem ég fór í gegnum í áfanganum LOKA3LS05 við sköpun á listaverki sem að endingu var sýnt á LÚVÍ sem er listahátíð nemenda af Nýsköpunar- og listabraut á lokaári í Verzlunarskóla Íslands.
Ég vil byrja á að segja aðeins frá sjálfri mér. Ég hef alla tíð verið frekar listræn í eðli mínu og haft yndi af því að skapa, hvort sem það er í tónlist og söng, sem ég hef stundað mikið, eða í myndlist sem ég undi mér mikið við á yngri árum en hef gert aðeins minna af allra síðustu ár. Ég hef einnig mikinn áhuga á sagnfræði og finnst mjög áhugavert að skoða hvernig sagan tengist listum og tísku, og hvernig þetta hefur þróast í gegnum tíðina. Ég hef mjög gaman að því að skoða fatnað frá fyrri tíð og þekki til dæmis mjög vel fatnað kvenna á miðöldum en það er eitt að mínum uppáhalds tímabilum. Ég geri líka mikið af því að hlusta á tónlist og finnst mjög gaman að leita upp nýja tónlistarmenn sem eru að koma fram á sjónarsviðið með eitthvað nýtt og ferskt í tónlistinni.
Í ferilrannsókn sem ég gerði í áfanganum fór ég í gegnum ferilinn minn hér í skólanum og þá áfanga sem ég hef lagt stund á. Ég lagði mat á áfangana og niðurstaðan var sú að Listasaga og Myndlist voru þau fög sem mér fannst skemmtilegust.

Verkefnið
Ég hef oft hugsað mikið um tímann. Hvernig hann er endalaus og eilífur, en samt ekki hvað okkur mannfólkið varðar. Okkur er bara úthlutað ákveðnum tíma í þessari jarðvist og við fáum bara eina umferð í þessu lífi. Eftir það gleymumst við smátt og smátt en við hverfum ekki alveg úr þessum heimi því efnin og orkan sem í okkur býr heldur áfram að vera til þó við sem lífverur hverfum á braut. Tíminn er því takmörkuð auðlind fyrir okkur mennina og mér finnst mikilvæg að nota hann eins vel og ég get.
Líklega er það vegna sagnfræðiáhugans sem mig hefur oft langað að ferðast aftur í tímann, og líka fram í tímann til að fá að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég myndi vilja sjá hvernig tíminn heldur áfram að breyta samfélaginu og jörðinni.
Það voru allar þessar hugsanir sem urðu til þess að ég ákvað að nota tímann sem útgangspunkt í lokaverkefninu mín og ég mun í næsta kafla rekja hvernig þessar hugsanir og hugmyndir urðu að listaverkinu mínu.

Yfirlýsing listamanns
Tími
Hrefna Karen Pétursdóttir
Tíminn er furðulegt fyrirbæri. Við bæði óttumst hann og elskum. Hann líður bæði hægt og hratt. Hann er ósýnilegur en þó sjáum við
ummerki um áhrif hans allt í kringum okkur.
Gang árstíðanna, hrukkumyndun, djúpa árfarvegi og fornminjar.
Oft finnst mér tíminn líða of hratt og þrái að geta stoppað hann.
Verkin endurspegla þessa tilfinningu, að líða eins og þú getir einfaldlega ekki haldið í við
tímann.

Hugmyndavinna
Það er hægt að túlka tímann á margan hátt. Ég hugsaði mikið um hvernig verk ég ætti að gera til að ná fram því markmiði. Ég skoðaði aðeins þá leið að nota ljósmyndir og taka þá myndir af gömlu fólki og spyrja þau spurningarinnar “hvað mundirðu vilja segja við þitt yngra sjálf” og láta fylgja með mynd af fólkinu á unga aldri. Ég hætti við þá hugmynd þar sem myndlistin er nær mínu áhugasviði heldur en ljósmyndun.
Ég ákvað því að gera málverk sem túlkaði tímann og sá fyrir mér einhvers konar hringrás sem maður er vanmáttugur gegn, er bara hluti af og getur hvorki stjórnað né stoppað.
Ég vildi líka ná fram réttum litum sem í mínum huga túlka tímann. Ég sé fyrir mér liti þegar ég hlusta á tónlist og sem innblástur hlustað ég á tónlistarmenn á borð við Grimes en tónlist hennar fellur undir “Dream pop” og hún syngur mikið um framtíðina, mannkynið, tilveruna og tæknina. Ég notaði litina sem ég heyrði í verkið.

Rannsóknarvinna
Í upphafi leitaði ég netinu eftir aðferðum til að ná fram sem mestri hreyfingu í myndina til að gera hringrásina sem ég sá fyrir mér lifandi og fallega. Ég mundi snemma í ferlinu eftir aðferð sem kölluð er “Acrylic paint pouring” og skoðaði hvort ég gæti skapað hringrásina með þeirri aðferð. Við nánari rannsókn sá ég “the black hole technique” og langaði að prufa mig áfram með hana.
Næsta skref var að kynna mér þau efni og áhöld sem til þarf. Ég fór margar ferðir í verslunina Litir og föndur til að fá ráðleggingar hjá starfsfólki sem var mjög hjálplegt. Ég prufaði mig áfram með þessa aðferð og það var mjög áhugavert en ég áttaði mig á að ég þyrfti líklega meiri æfingu og að lokum fannst mér að ég væri öruggari með pensil og hefði meiri stjórn á útkomu verksins þannig.
Ég breytti því um stefnu og ákvað að nota pensla. Ég fór í Litir og föndur eina ferðina enn og keypti þykkan pensil til að fá áferðina sem ég vildi ná fram.
Framkvæmd
Þegar ég var með allt til alls, málningu og pensla sem ég ætlaði að nota, byrjaði ég að mála verkið eins og ég sá það fyrir mér í huganum. Ég treysti á allt sem ég hef skoðað og lært áður. Ég gerði þykkar strokur með penslinum, notaði mikla málningu og hlóð upp lögum af litum. Ég prufaði mig áfram meðan ég var að mála og lagaði og leiðrétti jafn óðum þangað til ég var sátt með útkomuna.
Mér fannst heildstæðara að verkið væri samsett af tveimur myndum. Ástæðan fyrir því var sú að ég vildi túlka að tíminn er afstæður. Við upplifum tímann á mismunandi hátt, stundum líður hann hratt og stundum hægt, og engir tveir upplifa hann á sama hátt.
Það má segja að verkið sé undir áhrifum expressionisma þar sem ég tjáði tilfinningar og það sem ég sá fyrir mér nokkuð óheft og hömlulaust. Verkið flæddi í rauninni bara fram og var mikil sjálfstjáning.
Þegar að sýningunni kom stillti ég verkinu upp á góðum stað og fékk lánaðar trönur úr myndlistastofunni. Ég var mjög ánægð með loka útkomu verksins og þótti vænt um viðtökurnar sem það fékk.
  
Verkefnastjórnunarferlið
Ég var í Fata- og tískunefnd og var niðurstaða nefndarinnar að listamenn á sýningunni myndu klæðast stuttermabolum. Ég tók þátt í starfi nefndarinnar í upphafi annar en gat því miður ekki tekið þátt í öllu starfinu af fullum krafti eins og ég hefði viljað.
Góð verkefnastýring er gríðarlega mikilvæg í verkefni sem þessu, bæði fyrir hvern einstakling sem vinnur að sínu verkefni og ekki síður fyrir hópinn í heild til að gera sýninguna að veruleika. Hlutverk verkefnastjórnunar er að tryggja að allir þættir verkefnis séu unnir og klárist á réttum tíma til að heildarútkoman verði sú sem stefnt er að.

Sýningin
Sýning var sett upp á Marmaranum í Verzlunarskólanum. Rýmið nýttist vel fyrir sýninguna og það var gaman að hafa hana miðsvæðis í skólanum þannig að aðrir nemendur ættu auðvelt með að rölta um og skoða verkin á skólatíma. Sýningin var vel sótt, heppnaðist vel og nemendur sem að henni stóðu voru ánægðir með hvernig til tókst þegar upp var staðið.

Lokaorð
Að vinna að svona verkefni er gríðarlega lærdómsríkt og margt sem maður tekur með sér úr þessari vinnu. Það sem kemur fyrst upp í hugann er að mér fannst ég læra hversu mikilvægt er að vera skipulögð og þá sérstaklega í undirbúningi og hugmyndavinnu. Það verður allt auðveldara þegar grunnurinn er unninn vel og á skipulegan hátt.
Í rannsóknarvinnunni grúskaði ég mikið og lærði nýja tækni og aðferðir á meðan ég var að prófa mig áfram. Ég kynntist líka mikið af nýjum listamönnum meðan ég var að leita á netinu sem var mjög skemmtilegt því það er alltaf gaman að finna nýja listamenn sem manni líkar við og geta fylgst með þeim áfram. Í rannsóknarvinnunni lærði ég líka betur á liti, bæði hvernig þeir virka og tóna saman. Vinnan við verkefnið minnti mig líka á hversu mikið ég elska að mála og hvað það er gott að gera það þó að veikindi valdi því oft að mér líði illa. Að vinna að málverki er gott fyrir sálina, og það sem er gott fyrir sálina er gott fyrir líkamann.

Þegar ég hugsa um hvað úr þessari vinnu mun nýtast mér þá tel ég að allt sem að ofan greinir muni nýtast mér í framtíðinni. En auk þess held ég að hópavinnan og skipulagningin í kringum uppsetningu á sýningunni nýtist áfram. Það er dýrmætt að vera búin að fá tilfinningu fyrir því hvernig ferli það er að undirbúa og setja upp listasýningu. Þolinmæðin sem ég lærði við að þróa myndirnar mínar mun líka nýtast mér áfram. Ég þurfti að gera margar prufur, láta þorna og reyna aftur, þar til komin var ný tækni. Það mun nýtast mér í framtíðinni þegar ég held áfram að mála.
Ég held að verkin sem ég sýndi muni halda áfram að þróast með mér. Mig langar að þróa þau áfram og prufa mig áfram með tæknina og litablöndur. Ég ætla að mála fleiri verk í sama stíl og langar til að byrja á að mála eitthvað til að hengja upp á vegg heima.
Heilræði mín til þeirra nemenda sem verða í þessum áfanga næsta ár eru helst þau að byrja snemma í hugmyndavinnu og vinna jafnt og þétt að verkinu yfir alla önnina. Einnig vil ég segja við þau að vera óhrædd við að prufa eitthvað nýtt og gera það sem þeim sjálfum langar til.

Þessi áfangi hefur verið virkilega lærdómsríkur og skemmtilegur, og reynslan og þekkingin sem hann gaf mun halda áfram að vaxa með mér sem listamanni.
Heimildir

Gareth Evans. (2020, 21. september). The Beginners Guide to Acrylic Pouring. Ken Bromley Art Supplies Blog. Sótt af https://www.artsupplies.co.uk/blog/the-beginners-guide-to-acrylic- pouring/#:~:text=The%20Acrylic%20Pouring%20technique%20allows,paintings%20with%20dra matic%2C%20contemporary%20results.

JGÞ. (2009, 26. mars). Hvað er expressjónismi?. Vísindavefurinn. Sótt af
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=23768

Soby, Olga. (2020, 23. ágúst). TOP 10 Awesome Acrylic Pouring Techniques | Satisfying Fluid Art | Acrylic Pouring Compilation 2021. Youtube. Sótt af https://www.youtube.com/watch?v=CNdMFXAZK_A

Tiktus color Art. (2020, 18. janúar). The Black Hole technique - Acrylic fluid art painting. Youtube. Sótt af https://www.youtube.com/watch?v=EwyucgqKDuE

Tiktus color Art. (2021, 17. apríl). Two Black Holes technique ⚫⚫ Acrylic fluid art painting. Youtube. Sótt af https://www.youtube.com/watch?v=ZLzpAn7iTu4
Lokaskýrsla
Published:

Lokaskýrsla

Published:

Creative Fields